Í léttum dúr

 

Sykursnautt gos var innleitt á markaðinn til þess að svala þörf neytenda sem þráðu hressandi gosdrykki en vildu eða þoldu ekki sykur. Háværar raddir heyrast að þessir sykursnauðu gosdrykkir, sérstaklega þeir sem innihalda sætuefni séu varasamir. Fullyrðingar sem standast enga skoðun, samsæriskenningar og ósannindi hafa ómað svo lengi að hætt er við að hluti vitleysunnar verði tekið sem sannindum. Hér verður reynt að koma í veg fyrir það, öllum til heilla.

 

1.Sykursnautt gos veldur vökvasöfnun/bjúg í líkamanum.

Nei, það eru engar líkur á því að sykursnautt gos valdi með beinum hætti bjúgmyndun. Ef einstaklingur finnur fyrir bjúg í kjölfar neyslu á sykursnauðu gosi er líklegra að hann/hún hafi verið að græðga í sig söltum mat, snakki, kryddbjúgum, saltkjöti, ostum o.m.fl . Salt í óhófi veldur bjúg og salt er að finna víða og helst unnum matvælum. Það er hægt að sneiða fram hjá því og halda áfram að þamba Coke Zero eða Light.

 

2. Diet Coke og annað sykurlaust Coke er í raun jafn fitandi og venjulegt Coke, þetta er allt plat.

Nei, Sykurlaust Coke eða sykursnauðir gosdrykkir eru ekki fitandi. Líkaminn þarf orku til að starfa, matur er eldsneyti fyrir skrokkinn. Ef líkaminn fær meiri orku en hann nýtir til starfa þá geymir hann umfram orkuna sem fitu. Af því  leiðir að orkuríkur matur eins og bringukollar (392kkal/100g) eru meira fitandi en orkurýrt matvæli eins og hreðka (11kkal/100g). Algeng orkuþörf karlmanns er 2500 kkal og konu 2000 kkal á dag. Ef algengur karlmaður ætlar að fullnægja daglegri orkuþörf sinni með fullsætu Coca Cola þarf hann svo mikið sem 5,8 lítra af drykk og umfram það væri fitandi. Til að uppfylla daglegu orkuþörfina með Coke Zero sem er bragðgóður, hressandi og sykurlaus gosdrykkur þyrfti hann þamba þann daginn ríflega 83 þúsund lítra, allt umfram það væri fitandi. Þó skal tekið fram að best er að uppfylla orkuþörfina með fjölbreyttum og næringarríkum mat úr öllum fæðuflokkum.

 

3. Aspartam sem er í flestu sykurlausu gosi er eitrað og á ekki að vera á markaði.

Nei, Aspartam er ekki eitrað og ef svo væri, færi það strax af markaði. Til að tækla allar þær gróusögur sem vaða uppi um Aspartam þarf að skrifa mjög langa grein og því nenni ég ekki. Tökum það helsta: Aspartam er búið til úr fenýlalanín (50%), aspartínsýru (40%) og metanóli (10%). Metanól getur í nægjanlega miklu magni valdið ýmsum eitrunaráhrifum svo sem blindu og dauða. Það þarf ómanneskjulegt magn af sykursnauðu gosi til þess að eitrunaráhrif metanóls í aspartami komi fram. Til er ADI gildi eða daglegt neyslugildi, sem er viðmiðun fyrir því hversu mikið af ákveðnu efni má neyta á degi hverjum alla ævi án þess að skaði hljótist af. Og samkvæmt manneldisrannsóknum er meðalneysla á aspartami 6% af hámarks daglegu neyslugildi.

Ekki er hægt að fullyrða með vísindalegum rökum um tengsl milli heilaæxla og neyslu á aspartami, eða aspartams og krabbameins. Á síðasta ári sá Matvælaöryggisstofnun Evrópu ástæðu til þess að kanna og leggja mat á nýja langtíma rannsókn gerða af Ramizzi stofnuninni sem fékk niðurstöður þess efnis að aspartam gæti leitt til krabbameins. Niðurstaðan var sú að teknu tilliti til allra tiltækra upplýsinga að það væri bull og vitleysa. Og engin ástæða til endurskoða hámarks neyslugildi aspartams né efast um öryggi þess.

Þó ber að geta þess að þeir sem hafa sjaldgæfan efnaskiptasjúkdóm, fenýlketónúaríu, PKU verða takmarka neyslu á efninu og öllum matvælum sem innihalda fenýlalanín.

Auðvitað ræður hver og einn hvað hann drekkur, svona oftast. Ef menn vilja ekki drekka sykursnautt gos þá er það í góðu lagi svo lengi sem ástæðan er ekki, eitrað aspartam, bjúgmyndun eða óttinn við að fitna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband